HREYFING - VIRÐING - UPPLIFUN - LÍFSGLEÐI Hafa samband

Orðaspjall

Út er komin bókin Orðaspjall - Að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri eftir Árdísi Hrönn Jónsdóttur leikskólakennara. Útgefandi er leik-skólinn Tjarnarsel í Reykjanesbæ.

Bókin fjallar um Orðaspjallsaðferðina sem er leið til að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri. Aðferðin var þróuð í leikskólanum Tjarnarseli í samvinnu við Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Bókin er mjög myndræn, ítarlega er sagt frá Orðaspjallsaðferðinni og gefin dæmi úr starfinu í Tjarnarseli. Aðferðin felst í að kennarinn les bók með börnunum og velur orð úr bókinni til að kenna og leika með eftir fjölbreyttum leiðum. Lögð er rík áhersla á samræður við bóklesturinn til að efla hlustunarskilning. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, skrifar einn kafla bókarinnar sem fjallar um málþroska á leikskólaárunum og mikilvægi hans fyrir alhliða þroska barna og velgengni í námi. Í viðauka er listi yfir bækur og orð úr þeim sem kennarar geta nýtt sér.

Við hvetjum leik- og grunnskólakennara og aðra sem vinna að uppeldi og menntun barna að kynna sér Orðaspjallsaðferðina. Hún er lifandi og skemmtileg, eykur áhuga barna á bóklestri og eflir orðaforða og skilning á íslenskri tungu.

Bókin kostar 5200.- kr. og hana má nálgast með því að hafa samband við leikskólann Tjarnarsel tjarnarsel@tjarnarsel.is, í síma 420-3100 eða í gegnum facebooksíðu leikskólans/leikskólinn Tjarnarsel.