HREYFING - VIRÐING - UPPLIFUN - LÍFSGLEÐI Hafa samband

Fréttir frá Tjarnarseli

Tjarnarsel 50 ára

Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar, tók til starfa 18. ágúst 1967 og fagnar því 50 ára afmæli um  þessar mundir.

Þessum tímamótum er fagnað með margvíslegum hætti. Í lok júlí var haldin afmælissumarhátíð með pomp og prakt.  Á sjálfan afmælisdaginn verður upplýsingaskilti við útsýnispallinn niður við sjó afhjúpaður. Árið 2004 fór hópur barna frá Tjarnarseli á fund þáverandi bæjarstjóra, Árna Sigfússonar, og viðraði þá hugmynd að settur yrði upp útsýnispallur við sjóvarnargarðinn því þau sæju ekki lengur út á sjóinn. Þessari góðu hugmynd var vel tekið og ráðist var í gerð útsýnispallsins sem hefur glatt bæjarbúa og gesti síðan. Í vetur fóru elstu börnin í Tjarnarseli á fund Kjartans Más Kjartanssonar bæjarstjóra og kynntu fyrir honum þá hugmynd að sett yrði upplýsingaskilti við pallinn eins og víða hefur verið gert meðfram strandlengjunni. Hann tók afar vel í hugmyndina sem nú er orðin að veruleika. Skiltið  verður afhjúpað með viðhöfn  18. ágúst að viðstöddum börnum og kennurum í Tjarnarseli.

Afmælishaldinu er þó hvergi nærri lokið. Þann 22. september mun leikskólinn standa fyrir málþingi í Stapa í samvinnu við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar. Yfirskrift þess er; Orð í breiðum upp á heiðum og er aðalumfjöllunarefnið Orðaforði í sinni fjölbreyttustu mynd.  Að loknu málþinginu verður opið hús í Tjarnarseli.